1. Tónlistarnám fyrir börn sín þar sem rækt er lögð við jákvæða samvinnu og samveru foreldra og barna.
2. Að senda börn sín í markvisst tónlistarnám yngri en ella.
3. Tónlistarnámi þar sem markviss hlustun er notuð til að auka tónlistarþroska barnanna og tónnæmi.
4. Tónlistarnám þar sem áhersla er lögð á vandaða tækni og fallega tónmyndun
Í því felst líka að vera í tengslum við almennt tónlistarlíf, sækja tónleika og fylgjast með. Lögð er áhersla á að hluti aukanámsefnis innihaldi íslenska tónlist. Sköpun og spuni er í auknum mæli viðfangsefni tónlistarkennara og mun verða leitað leiða til að sinna þeim þáttum.
Til að ná þessum markmiðum munu kennarar skólans leitast við að fylgjast með nýungum og þróun í Suzukikennslu um heiminn, kynna sér viðbætur námsefnis, bæta þekkingu sína og færni og fylgjast með í íslensku tónlistarlífi. Námskeið og samvinna hverskonar örvar bæði kennara, nemendur og foreldra, og munu kennarar leitast við að sækja námskeið og halda námskeið fyrir nemendur.
Skólinn ætlar að vera sýnilegur í samfélaginu, m.a. með tónleikum á opinberum vettvangi og með samvinnu við fyrirtæki, félög og uppeldisstofnanir.
Sérmenntun kennara er nauðsyn. Réttindi til að kenna eftir Suzukiaðferðinni eru veitt samkvæmt prófreglum Evrópska Suzukisambandsins.
Sérstaða skólans gagnvart öðrum Suzukiskólum og deildum felst m.a. í forsögu skólans, fjölda kennara sem hafa réttindi til að þjálfa Suzukikennara, reynslu þeirra flestra sem virkra Suzukiforeldra. Fyrstu árin naut skólinn ekki opinberra styrkja og var því alfarið rekinn af fjármunum sem foreldrar lögðu til.
Einnig fer fram æfingakennsla suzukikennaranema (fiðla, píanó, víóla) í tengslum við starf skólans. Suzukiaðferðin
Börnin byrja ung og læra af umhverfinu. Að heyra vandaða tónlista frá fæðingu stuðlar að tónlistarþroska, rétt eins og að heyra tungumálið stuðlar að málþroska. Formleg kennsla í tónlist getur hafist um þriggja ára aldur.
Þar sem umhverfið hefur svo rík áhrif á þroska barnanna beinist Suzukiaðferðin ekki aðeins að börnunum sjálfum heldur einnig umhverfi þeirra. Foreldrar barnanna skapa nánast umhverfi barnanna. Þess vegna vinna Suzukikennarar með foreldrum og leiðbeina þeim í tónlistaruppeldi barnanna. Það gefur því auga leið að samvinna við foreldra er mjög náin. Mikilvægt er að fullt traust og trúnaður ríki milli foreldra og kennara.
Suzukiþríhyrningurinn er tákn fyrir samvinnu foreldris, kennara og barns. Síðan má draga hring utan um þríhyrninginn sem tákn um umhverfið.
Öll börn geta lært. Rétt eins og öll heilbrigð börn geta lært móðurmálið trúum við því að öll börn geti lært tónlist, og hljóti af því almennan þroska sem sé gott veganesti fyrir framtíðina.
Eitt skref í einu. Mikilvægt er að beina einbeitingu barnanna ekki að of mörgum atriðum í senn. Lögð er áhersla á góðan grunn strax í upphafi.
Byggt er á hlustun og herminámi. Börnin læra lögin með því að hlusta á námsefnið. Mikið af kennslunni í byrun fer fram með því að sýna og láta nemendur herma eftir.
Fræðsla fyrir foreldra og stuðningur við vinnu þeirra er mikilvægur þáttur. Námið hefst á foreldrafræðslu og mikilvægt er að fundir og fræðsla fyrir foreldra haldi áfram. Eðli námsins breytist eftir því sem börnin eldast og hlutverk foreldra einnig.
Námshraði við hæfi hvers einstaklings. Námshraðinn miðast við getu einstaklingsins, því getur yfirferð verið mjög mishröð.
Endurtekning og upprifjun. Mikilvægur þáttur námsins er upprifjun eldra námsefnis, þar sem lögð er áhersla á aukin gæði með aukinni færni.
Styrktarfélag. Skólinn er rekinn af Samtökum foreldra og kennara um rekstur Allegro Suzukitónlistarskóla. Formaður samtakanna er Brynja Margeirsdóttir.
Stjórnun. Til að halda kostnaði í lágmarki voru í upphafi engar stjórnunarstöður við skólann. Faglegar ákvarðanir voru teknar á sameiginlegum kennarafundum. Frá og með hausti 2003 var Lilja Hjaltadóttir ráðinn skólastjóri. Frá og með hausti 2008 skiptu Lilja og Kristinn Örn Kristinsson með sér stjórnun, Kristinn Örn skólastjóri og Lilja aðstoðarskólastjóri Ákvarðanir sem snerta rekstur skólans eru teknar af skólanefnd skólans. Skólanefnd er skipuð stjórn samtakanna. Foreldrafélag Allegro starfar við skólann og einnig Hollvinafélag Allegro
Grunnnámsefni hljóðfærakennslunnar er námsbækur Suzukiaðferðarinnar sem gefnar eru út af Alfred Music. Þar við bætist lestrarefni, samleiksverk, tónstigar og tækniæfingar og ýmis önnur aukaverkefni þegar við á. Kennt er á fiðlu, píanó og víólu. Áður fyrr var einnig kennt á selló, og í boði voru sérstakir tímar fyrir ungabörn frá 0 til þriggja ára. (Early Childhood Education) Einnig svokallaðir smáfiðluhópar og píanó piccolo til að brúa bilið frá ungbarnahópum yfir í hljóðfæranámið. Þetta hefur verið lagt af, meðal annars vegna sparnaðar.
Foreldrafræðsla. Námið hefst með foreldrafræðslu en þar fá foreldrar innsýn í námið, hugmyndafræði námsins og fá tilsögn við fyrstu skref hljóðfæraleiksins. Bent er á bókina Suzuki tónlistaruppeldi sem handbók fyrir foreldra. Ungir nemendur eru í byrjun gjarna látnir fylgjast með spilatímum annarra nemenda.
Einkatímar. Allir nemendur fá einkatíma einu sinni í viku. Þar er lagður grunnur kennslunnar. Lengd einkatíma fer eftir aldri og einbeitingu og hve langt nemendur eru komnir í námi. Stundum eru einkatímar látnir skarast þannig að nemendur fylgjast með nemendum á undan og eftir tíma.
Hóptímar. Hóptímar eru aðra hverja viku á laugardögum. Þar þjálfast börnin í að spila saman og hvert fyrir annað. Unnin eru tæknileg viðfangsefni í hóp, farið í leiki sem þjálfa ýmsa grunnþætti tónlistar, jafnvel unnið með tónfræði nótnalestur og fleira. Félagslegi þátturinn gegnir veigamiklu hlutverki, bæði meðal nemenda og foreldra. Stefnt er að því að allir nemendur geti verið í hóptímum á svipuðum tíma þannig að foreldrar og börn kynnist og myndi sterkt samfélag.
Nótnalestur er þjálfaður um leið og nemandinn hefur það gott vald á grunntækni hljóðfæraleiksns að einbeiting að nótnatáknunum raski henni ekki. Oft er það þegar búið er með eitt hefti grunnnámsefnisins. Hægt er að undirbúa nótnalestur fyrr án hljóðfæris, t.d. með taktlestraræfingum og söng af blaði.
Tónfræði er kennd þegar nemandinn fer að vinna með nótnatáknin. Hún getur byrjað snemma í formi einfaldra ritæfinga. Tónfræðin er unnin út frá heyrn í byrjun, síðan út frá ritun og greiningu. Hóptímar í tónfræði byrja um 9 ára aldur. Leitast er við að tengja tónfræðina beint við námsefni hljóðfærisins. Námsmat fer fram eftir grunni nýrrar námskrár í tónfræðigreinum og lýkur á miðprófi.
Samleikur er mikilvægur þáttur hljóðfæranámsins, um leið og nótnlestur er kominn á skrið og mjög vænlegur til að þjálfa og örva áhuga á færni í nótnalestri.
Tónleikar. Að koma fram á tónleikum er mikilvægur þáttur námsins. Þar fá börnin að sýna getu sína, það er upphefð og örvandi takmark, og ákveðinn áfangi í náminu.
Foreldraviðtöl fara fram reglulega. Þar er rædd staða mála, framtíðarmarkmið og hverni auka megi gæði námsferilsins.
Útskriftir úr bókum fara fram í formi sérstakra útskriftartónleika. Nemandinn tekur upp valin lög úr útskriftarbókinni og fær umsögn frá kennara, öðrum en sínum eigin. Nemandinn leikur síðan lög sem hann hefur dregið úr námsefninu og útskriftarlag á tónleikum og fær skírteini og skriflega umsögn. Foreldrar og nemendur gleðjast saman yfir áfanganum og skólinn gefur öllum nemendum litla útskriftargjöf eða blóm.
Áfangapróf eru tekin samkvæmt námskrám Menntamálaráðuneytisins, þ.e. grunnpróf og miðpróf í samræmi við gildandi greinanámskrár í tónlist og með aðfengnum prófdómurum. Stundum eru tekin stigspróf á milli áfangaprófa.
Framtíðarsýn skólans felur í sér að Suzukinám verði raunhæfur valkostur fyrir alla foreldra án tillits til búsetu eða efnahags. (Því miður styður pólítískt umhverfi ekki þá framtíðarsýn í dag).
Skólinn verði í fremstu röð á sínu sviði og vaxtarbroddur á sviði Suzuki kennaraþjálfunar. Að lífsýn Suzuki og áhersla á jákvæða samvinnu barna og foreldra geti orðið öðrum fyrirmynd og haft jákvæð áhrif á samfélagið.
Sími: 588 6200
Netfang: allegro@allegro.is
Langholtsvegi 109-111,
104 Reykjavík
Stafrænar lausnir frá