Eftir Kristin Örn
•
11. ágúst 2024
Allegro átti 25 ára afmæli síðasta haust, lítið var gert til að halda upp á afmælið, enda mikill sparnaður í gangi, en þó komu kennarar þeim Kristni og Lilju á óvart með smá afmælisuppákomu! Þess má einnig geta að grein um skólann birtist í Morgunblaðinu sem gaman er að vitna til með fyrirsögninni: „Gefum ekki afslátt af vandvirkni“ og undirtitlar greinarinnar voru: • Allegro Suzuki-tónlistarskólinn fagnar 25 ára afmæli • Nemendur víða í tónlistarlífinu • Móðurmálsaðferð Suzuki • Heimilislegur tónlistarskóli og foreldrar hafa hlutverk • Langir biðlistar. Starfið fór fram með hefðbundnum hætti, 79 nemendur stunduðu nám, útskriftir, tónleikar og próf gengu vel fyrir sig og óvenju margir nemendur luku áfangaprófum þetta árið og meðaleinkunn var yfir níu. Meðal viðburða skólaársins má nefna að Allegro þátt í klassíska krakkadeginum í Hörpu þann 20. apríl með samleiks atriðum og einleik bæði píanóleikara og fiðluleikara. Tríó þriggja ungmenna í Allegro, þeirra Sveindísar, Sólar og Sigrúnar sem leika á fiðlu, víólu og píanó, voru fulltrúar skólans á svæðistónleikum Nótunnar sem haldin var í Salnum í Kópavogi. Þau komu líka fram á athöfn við styrkveitingar barnamenningarsjóðs í Þjóðmenningarhúsinu 26. mars. Það hefur verið gaman að fylgjast með fyrrum nemendum Allegro. Á tónleikum Menntaskóla í tónlist þann 9. mars í Neskirkju komu fram sem einleikarar Ásta Dóra Finnsdóttir á píanó og Austin Ching Yu á fiðlu. Hljómsveitinni stjórnaði Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir. Allir þessir öflugu einstaklingar lærðu í Allegro á sínum tíma. Ásta Dóra hélt líka opinbera einleikstónleika í Salnum í Kópavogi nú í júni. Einn af sigurvegurum keppninnar „Ungir einleikar“ hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands 2024 var Helga Diljá Jörundsdóttir, fiðluleikari sem er fyrrum nemandi í Allegro. Þrír fyrrum nemendur Allegro útskrifuðust frá Menntaskóla í tónlist í vor, þau Mímir Mixa píanóleikari, Margrét Lára Jónsdóttir fiðluleikari og Austin Ching Yu Ng fiðluleikari. Hollvinafélag Allegro hélt aðalfund í vor en eitt af markmiðum þess er einmitt að efla tengsl skólans við fyrrum nemendur og foreldra. Stjórn þess skipa nú Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Arndís Bergsdóttir, Steinþór Sigurðsson, Finnur Kristinsson og Þórunn Elín Pétursdóttir. Nú í haust verða þær breytingar að Kristinn Örn lætur af störfum skólastjóra (heldur áfram kennslu) en Gróa Margrét Valdimarsdóttir tekur við og henni til aðstoðar verður Anela Bakraqi. Helga Steinunn lætur af störfum við skólann og færum við henni bestu þakkir fyrir vel unnin störf. Sigrún Harðardóttir kemur inn í stærra hlutfall sem fiðlukennari. Áttatíu og sex nemendur hafa verið innritaðir til náms á haustönn 2024. Langir biðlistar eru við skólann og sárt að geta ekki sinnt þeim stóra hópi. Sótt hefur verið um aukið fjármagn til skólans frá Reykjavíkurborg en formlegt svar hefur ekki borist er þetta er ritað.